miðvikudagur, 28. mars 2007

Verkefni í gangi

Ullarvestið sem ég nefndi í síðustu færslu er nánast tilbúið - á bara eftir að festa hlírana og ganga frá nokkrum endum. Mynd kemur þegar þessu er lokið. Svo er ég byrjuð á sjali handa Ernu. Rauður lopi og rautt loðband, mjög smekklegt og fínt, uppskrift úr "Þríhyrnur og langsjöl" - þetta er sumsé langsjal prjónað með krónuprjóni. Vorið er síðan að bera mig ofurliði, léttara garn verður girnilegt og ómótstæðilegt. Varð mér úti um silkigarn í gær og smá handlitaða bómull - fitjaði uppá og er að prjóna kjólgopa á Rúnuskott. Er dálítið metnaðarfull því ég ætla að reyna að klára kjólinn fyrir afmæli Haraldar nk laugardag (í dag er miðvikudagur og ég er komin ca 10cm... ehm). Svo mun ég mynda og blogga strax og kjóllinn er til.

sunnudagur, 18. mars 2007

Ekólógískur sumartoppur


Hér er kominn þessi sæti sumartoppur (eða vesti) sem Rúna Lóa ber svona glæsilega. Bómullargarn og prjónar númer sirka 3.5, uppskriftin heimatilbúin... en skrifuð samviskusamlega á blað!!! Garnið er mjög skemmtilegt, ekólógísk bómull handlituð, bleiki liturinn er svo fjöldaframleidd egypsk bómull. Hlírar prjónaðir eftirá með I-cord aðferð (ehm þetta er líklega svoldið nördalegt, sérstaklega vegna þess að þetta hugtak er ekki einusinn skýrt á wikipedia- ég biðst forláts - en þetta er mjög einfalt). Ætla að nota sömu "uppskrift" í ullartopp/vesti, byrjuð á því.

sunnudagur, 11. mars 2007

Hinn töfrandi Möbíus


Prjón er þess eðlis að nýjar uppgötvanir gefa prjónaranum ótrúlegt kikk og oft á tíðum fölskvalausa gleði. Til eru ýmsar goðsagnir tengdar nútímaprjónaskap, margar runnar undan rifjum Elizabeth Zimmerman (EZ) sem er Yoda/Mr. Myagi prjónsins. Ein þeirra er Möbíus sjalið. Margir þekkja möbíusinn úr stærðfræðitímum unglingsáranna þegar maður var látinn klippa pappírsræmu og snúa henn hálfhring og líma endana saman - með þessu myndaðist fyrirbæri sem hefur aðeins eina hlið og einn kant... fyrirbæri sem er "unorientable", formfræðileg ráðgáta. Snillingurinn hún EZ fann út hvernig mætti prjóna fyrirbærið og í dag er það heilög skylda hverrar prjónakonu með sjálfsvirðingu að læra að prjóna möbíus. Ég mun að sjálfsögðu birta mynd af afrakstrinum fyrr en varir.

miðvikudagur, 7. mars 2007

Fljúgandi prjónandi


Spurning: Ætli það sé þorandi að fara með prjónadót í flug? Er búin að spá mikið í þetta en hef ekki þorað að prófa. Það væri óbærilegt að þurfa að skilja eftir fínt par af prjónum í haug með vasahnífum, naglaskærum og alls konar skrani. Kannski skiptir máli hvort um er að ræða 30 cm stálprjóna númer 2.5 (fyrir óinnvígða má geta þess að slíka prjóna væri hægt að nota til að myrða heilt cabincrew) eða heklunál úr tré númer 15 (sem er svo stór og sver að margir hrökkva við að sjá hana og halda að hún sé ætluð til einhvers annars og meira prívat athæfis en handavinnu).

mánudagur, 5. mars 2007

Á prjónunum


Það er að sjálfsögðu hellingur á prjónunum. Hér er eitt sýnishorn, garðaprjónað sjal úr þreföldu kid mohair, prjónað á hlið á prjóna nr 15. Reyndar má geta þess að svona risaprjónar beinir eru ekkert rosalega sniðugir fyrir herðarnar, þeir eru svo stórir að axlirnar lyftast upp og spennast óþarflega. Ég mæli því með hringprjónum þegar hægt er. Nefna má fleiri stykki á prjónum s.s. hyrnu úr texasullinni, alpaca garðaprjónspeysu á Rúnu Lóu, opal sokkana sem eru hér á blogginu og lopapeysuna á Rúnu og svo lopapeysu á Birnu sem er vinkona hennar Babyborn Rúnudóttur. Ég er með alvarlegt tilfelli af sjúkdómnum "startitis". (sjúkdómnum var fyrst lýst af prjónagyðjunni Stephanie Pearl-McPhee, sem hardcore prjónarar þekkja undir nafninu Yarn Harlot) Hann lýsir sér í óstjórnlegri þörf til að byrja á nýjum og nýjum prjónaverkefnum. Þegar best lætur fær prjónarinn regluleg "finishitis" köst, en þá er það þörfin til að klára verkin sem knýr hann áfram. Sköpunarþörfin ber mig ofurliði mörgum sinnum á dag og rænir mig svefni. Í alvöru - stundum á ég erfitt með að sofna á kvöldin vegna óra um nýjar flíkur og girnilegt garn.

Smitandi athæfi


Hyrnurnar mínar eru svo ljómandi fallegar og litirnir í garninu svo töfrandi að fólk í Stokkhólmi er unnvörpum að kasta sér út í prjónaskap. Tökum dugnaðarforkinn hana Lóu Guðrúnu Davíðsdóttur sem dæmi. Hún er farin að velja prjónana fram yfir klósettferðir, svefn og ljúffengar máltíðir. Afraksturinn er líka stórkostlegur. Tvær risastórar hyrnur komnar í heiminn og fleiri á leiðinni. Nú þarf ég bara að passa upp á að kenna henni eitthvað annað svo hún fái ekki hyrnuasperger. Fyrir áhugasama fylgir hér uppskriftin: Fitjið upp 7 lykkjur, prjónið slétt eina umferð, prjónið næstu umferð og aukið út eina lykkju fyrir innan tvær fyrstu og tvær síðustu. Aukið er með því að slá bandinu upp á prjóninn - þá verður til ný lykkja sem er prjónuð í umferðinni til baka. Prjónið til baka, nú eiga að vera komnar 9 lykkjur á prjóninn. Merkið nú miðjulykkjuna með bandi í öðrum lit. Nú er haldið áfram að prjóna og aukið í 4 lykkjur í annarri hverri umferð, þ.e. bandi slegið upp á fyrir innan 2 fyrstu og 2 síðustu lykkjur, og líka sitt hvorum megin við miðjulykkjuna. Þannig vex sjalið niður á við og út á við. Byrjunin er sem sagt miðjan efst við hálsinn. Þegar sjalið er orðið nógu stórt er fellt laust af. Ef maður er í svaka stuði er svo hægt að hekla eitthvað smart kringum sjalið í lokin.

Búkonan litla



Í fyrsta sinn með snúð í hárinu. Innblásið af þætti um lítil kínversk skólabörn. Þar lærðum við margar nýjar hárgreiðslur. Hér er hún með vestfirsku hyrnuna sem er prjónuð úr sænskri ull sem er spunnin í eistlandi. Ullin er handlituð svo að útkoman er æsispennandi - ekki hægt að sjá fyrirfram hvernig litirnir verða. Þetta sjal er hún búin að vera með bundið um sig í frosthörkunum undir útigallanum... og eiginlega bara stöðugt. Hún er mjög ánægð með það.

Hamin nákvæmni


Halldóra Hnykill prjónavinkona (og almenn vinkona mín) í Stokkhólmi er mjög mikið að reyna að pína mig til að skrifa niður uppskriftir fyrir dótið sem ég prjóna og hekla. Nú hefur henni tekist ætlunarverkið því ég hef nákvæmlega skráð hvernig þetta guðdómlega poncho var búið til. Haldið ykkur fast; eftirfarandi garn var notað: Rowan silk tweed í grasgrænum lit, grænt kid mohair, þrír grænir litir af loðbandi, ljósgrænn plötulopi, grænt Sandnes Tove garn, gullgarn og marglitt salsagarn. Púff... Garnið nota ég í mismunandi samsetningum, 2 eða 3 þræði saman. Með þessu fæst skemmtileg og óregluleg áferð. Prjónar númer átta efst og svo númer tíu, tvö eins stykki prjónuð og saumuð saman eftirá. Semsagt byrjað efst fitjað upp 25 l og prjónað 2 cm, miðjulykkjan fundin og merkt. Svo byrjað að auka í, 2 l í annari hvorri umferð - sitt hvorum megin við miðjulykkju. Ég jók í með því að prjóna framan og aftan í lykkjuna, en það má svosum nota aðrar aðferðir. Eftir 19, 24 og 28 cm var svo tekið úr fyrir axlir, þ.e. tvær fyrstu og tvær síðustu lykkjur prjónaðar saman (alls þrisvar. Þegar tekið er úr er samt haldið áfram að auka í við miðjulykkjuna. Þegar stykkið er orðið ca 35 cm eru prjónaðir 2 cm neðst án þess að auka í. Svo fellt af með skrautlegu garni. Ath að það má víxla sléttu og garðaprjóni til að búa til skemmtilega áferð.

Poncho aldarinnar


Ég var búin að prjóna svo mikið bleikt og fjólublátt og svoleiðis að mér þótti mál að linni. Fór í hauginn og safnaði saman öllu grænu sem ég fann. Og viti menn! Það var hellingur í boði. Bætti svo við tveimur litlum dokkum sem ég keypti til að fullkomna efnisvalið. Í garnbúðinni hékk ljómandi fínt poncho passlegt á þriggja ára - kerlingarherfan neitaði að gefa mér uppskriftina - en benti góðfúslega á að þær væru til sölu ef maður keypti efni á staðnum... og aðeins þá. Ég lét hneykslun mína í ljós og settist svo við borð þar sem uppskriftin var í möppu. Las hana og spurði svo hvort ég mætti ekki bara skrifa hana upp því hún var svo einföld. Þetta var auðvitað mikil móðgun og illt auga fékk ég. Þá hljóp í mig kapp og ég sagðist bara ætla að leggja hana á minnið- og gerði það. Muahahahah ég er prjónaanarkisti.

sunnudagur, 4. mars 2007

Bleika blómahúfan


Rúna er mjög áhugasöm um prjónaskap og handavinnu eins og komið er fram. Hún bað mig mjög fallega að prjóna handa sér bleika húfu. Bleikir hlutir eru efstir í virðingarstiganum í heimi krónprinsessunnar. Þessi er gerð úr tyrkneska blómapallíettugarninu, með dökkbleikum mohair kanti - sló í gegn.

Nýtni




Það er hægt að lengja líftíma fata með því að prjóna stroff og sauma á. Þetta er einfalt og sjúklega smart eins og sést á þessum myndum. Á gallabuxunum er stroff úr tyrknesku diskógarni og á mussunni er stroff úr loðbandi og mohair. Það síðarnefnda er búið að þvo á 40 og hefur aðeins þæfst við það - en það kemur alls ekki að sök. Hugmyndin kom úr dönsku blaði... nema hvað!


Húfa handa Álfrúnu


Þessi er hekluð úr léttlopa. Einföld og fín og búin til fyrir litlu álfastelpuna Álfrúnu á Íslandi - hún er minnsta stjúp-stjúpsystir mín, eins árs og sjúklega sæt. Ég ætla að biðja um mynd af henni með húfuna.

Svoldið galinn


Þetta er heklaður trefill sem er hægt að gera eins stóran og langan og mann lystir og litirnir stjórna "the level of madness". Í þessum er íslenskt loðband og mohair mismunandi þykkt. Uppskriftin er mín en innblásin af einhverju sem ég sá í dönsku blaði.

Eldgamlir heklupokar


Ég hef örugglega heklað sjöhundruð svona poka. Bara marglitt bómullargarn og fastahekl. Eins einfalt og hægt er. Garnbúð í Stokkhólmi er að bjóða tveggja tíma námskeið í að hekla nákvæmlega svona poka - kostar tæpan 300 kall (SEK) ÁN efnis!! En þeir eru sætir og standa fyrir sínu... til dæmis í staðinn fyrir pappír utan um litlar gjafir.

Megrunarprjón


Nú hafa prjónaverkin hlaðist upp hjá mér og kominn tími til að dæla dágóðum skammti inn á síðuna. Ég komst að einni skemmtilegri og hjartanlega velkominni hliðarverkun prjónaskaps... Ansi lógísk hliðarverkun samt, sérstaklega ef prjónarinn er ákafur og heldur sér vel að verki. Þetta veldur því að hendur prjónarans og athygli eru föst við verkið og á meðan er ekki hægt að BORÐA MAT!! Þess vegna mjókkar sá sem prjónar hægt og sígandi... Skemmtilegt þetta ef af nógu er að taka.