mánudagur, 5. mars 2007

Smitandi athæfi


Hyrnurnar mínar eru svo ljómandi fallegar og litirnir í garninu svo töfrandi að fólk í Stokkhólmi er unnvörpum að kasta sér út í prjónaskap. Tökum dugnaðarforkinn hana Lóu Guðrúnu Davíðsdóttur sem dæmi. Hún er farin að velja prjónana fram yfir klósettferðir, svefn og ljúffengar máltíðir. Afraksturinn er líka stórkostlegur. Tvær risastórar hyrnur komnar í heiminn og fleiri á leiðinni. Nú þarf ég bara að passa upp á að kenna henni eitthvað annað svo hún fái ekki hyrnuasperger. Fyrir áhugasama fylgir hér uppskriftin: Fitjið upp 7 lykkjur, prjónið slétt eina umferð, prjónið næstu umferð og aukið út eina lykkju fyrir innan tvær fyrstu og tvær síðustu. Aukið er með því að slá bandinu upp á prjóninn - þá verður til ný lykkja sem er prjónuð í umferðinni til baka. Prjónið til baka, nú eiga að vera komnar 9 lykkjur á prjóninn. Merkið nú miðjulykkjuna með bandi í öðrum lit. Nú er haldið áfram að prjóna og aukið í 4 lykkjur í annarri hverri umferð, þ.e. bandi slegið upp á fyrir innan 2 fyrstu og 2 síðustu lykkjur, og líka sitt hvorum megin við miðjulykkjuna. Þannig vex sjalið niður á við og út á við. Byrjunin er sem sagt miðjan efst við hálsinn. Þegar sjalið er orðið nógu stórt er fellt laust af. Ef maður er í svaka stuði er svo hægt að hekla eitthvað smart kringum sjalið í lokin.

3 ummæli:

Bergur sagði...

Fyrir sauð eins og mig sem er með lesprjónablindu á háu stigi minnir þetta meira á bleikar nærbuxur en einhverja hyrnu að vestan.

Juno sagði...

Blessuð Prjónakona

Ég fann upskryftina af hyrnunni hérna, og ákvað að reina.

Prjónaði Regnboga hyrnu, þar sem ég var að fá sendingu frá Álafossi og vildi prufa alla litina.

Ég er ofsa ánægð með hyrnuna, og vildi þakka þér kærlega fyrir innblásturinn.

Hérna er tengill við mynda-albúmið mitt á facebook síðunni minni, þar sem eru myndir af Regnbogahyrnunni, og fleiri prjónatilraunum.

http://www.facebook.com/album.php?aid=44444&id=587198337

Hera

Nafnlaus sagði...

Sæl,
Hvaða garn er í þessari fallegu hyrnu?
Er þetta garðaprjón?
kveðja, Guðrún