föstudagur, 30. október 2009

Lesprjónið flytur


Kæru lesprjónsgestir. Nú er lesprjónið flutt á Eyjuna og þaðan mun boðun fagnaðarerindisins halda áfram. Verið velkomin - smellið hér til að komast beint á nýja staðinn.
Bestu prjónakveðjur í heimi,
Ragga

fimmtudagur, 29. október 2009

Lóan er komin



Jæja loksins er Lóan komin. Hér er hægt að sækja uppskriftina á pdf skjali í stærðinni 6-8 ára. Smellið hér. Uppskriftin er í þremur stærðum og bæði á ensku og íslensku. Munið að tengja Lóurnar ykkar við uppskriftina á Ravelry! Njótið!

fimmtudagur, 15. október 2009

Jólasveinahúfa


Hér er uppskrift af jólasveinahúfu sem ég snaraði fram síðustu jól. Þegar prjónandi móðir er beðin um svoleiðis af lítilli nývaknaðri stúlku í desember er ekki annað hægt en að standa sig. Á myndinni er Álfrún sem fékka eina í sinn jólapakka.

Garn: Angora (hvítt), Loðband/einband (rautt)


Prjónar: 40 cm hringprjónn nr. 6 og sokkaprjónar nr.6 – eða langur hringprjónn nr. 6.

Stærðir: 0-2 (3-5 ára) 5-10 ára (fullorðins)

Ath. mjög gott er að prjóna húfur á langan hringprjón (100 cm eða lengri). Þannig þarf ekki að skipta yfir á sokkaprjóna þegar húfan þrengist efst.

Aðferð:
Fitjið upp 45 (50) 60 (70) lykkjur með tvöföldu hvítu angoragarni á prjón númer 6. Tengið í hring og byrjið að prjóna stroff: 3 sléttar og 2 brugðnar til skiptis. Þegar stroffið mælist 5(6)7(9) cm er skipt yfir í rauða garnið (tvöfalt loðband/einband) og prjónuð ein umferð slétt. Í næstu umferð er aukið út um 3(4)4(5) lykkjur jafnt yfir umferðina (hafið um það bil jafn margar lykkjur á milli, annars þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt). Aukið út svona: takið bandið milli lykkjanna upp á vinstri prjóninn, prjónið í það snúið, þannig myndast ný lykkja.

Urtökur:
Þegar húfan mælist 14 (15) 16 (18) cm: Prjónið 2 l saman 5(6)6(7) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 17(19)20(23) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 22(23)25(30) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 25(27)29(35) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð. Hér eftir eru úrtökur með 2 cm millibili – 2-4 sinnum í hverri úrtökuröð fyrir allar stærðir þar til alls 6-10 l eru eftir á prjónunum. Prjónið þá 2 og 2 saman út umferðina – slítið bandið og dragið í gegnum lykkjurnar sem eru eftir. Búið til dúsk og gangið stolt um götur með jólasveinahúfu á höfði!

fimmtudagur, 17. september 2009

Jólin koma

Já, þau nálgast með ógnarhraða. Að minnsta kosti í heimi prjónara og annarra sem sem vilja helst gefa sínum nánustu heimagerðar jólagjafir. Hér er ein hugmynd. Ég keypti venjulegan ullarbol hjá Handprjónasambandinu og skreytti hann með svolitlu hekli. Þetta er svakalega sætt vesti og gæti gengið fyrir stelpur jafnt sem stráka.

Peysan Lóa

Peysan Lóa er einföld, ofurlétt og mjúk stelpupeysa prjónuð úr Nammi. Peysan passar á 5-6 ára og í hana fóru ekki nema um 70g af Nammi. Að sjálfsögðu er peysan prjónuð að ofan - enda finnst mér ótrúlega mikill munur að prjóna peysur þannig, fæ ekki nóg af því.
Lóa númer tvö er alveg að verða tilbúin, hún er prjónuð á sama hátt en er með aðeins öðruvísi útaukningum á laskastöðunum, lokaðri, en ekki opinni eins og á myndunum hér. Hún er aðeins stærri og hefur "púffkant" að neðan - eins og sést á ermunum hér... algjört krútt. Ég er að vinna í því að gefa út uppskriftina - hana verður innan skamms hægt að nálgast ókeypis í Nálinni og hér á síðunni. Uppskriftin verður í bæði barna og fulorðinsstærðum. Þið munið svo að heimsækja Nammið hér.

miðvikudagur, 2. september 2009

Gerðuberg og leiðtogaprjón

Jæja þá er ég með fyrirlestur um prjón á netinu í Gerðubergi í kvöld. Þar verða mánaðarleg handverks- og menningarkvöld í vetur undir stjórn hinnar hæfileikaríku knipldrottningar Margrétar Valdimarsdóttur sem ég kynntist í eftirminnilegu húsmæðraorlofi í Textílsetrinu á Blönduósi í sumar. Í tilefni þess hef ég nú hrúgað hingað inn nýjum hlekkjum á skemmtilega netprjónastaði, sjá neðarlega á hægri spássíu. Á vafri mínu í undirbúningnum endurnýjaði ég kynni við microrevolt prjónapönkarana og ákvað að útbúa með hjálp síðunnar prjónamynstur fyrir þá sem hefur alltaf dreymt um að prjóna okkar ljósa leiðtoga, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér er munstrið í sæmilegri stærð til að prenta út. Nú hlakka ég bara til að sjá göturnar fyllast af kátum prjónurum í jóhönnupeysum!!

föstudagur, 17. júlí 2009

Nammi komið út úr skápnum


Nammi er fyrsta garnlínan frá Reykyarnvik. Nammi er smám saman að koma út úr skápnum og er byrjað að breytast í undursamlegar flíkur hér og þar. Núna fæst Nammi í Nálinni og á Etsy. Reykyarnvik og Nammi eiga líka sitt eigið blogg - verið velkomin í heimsókn þangað - reyndar er það á ensku því Nammi langar svo út í heim að hitta allskonar prjónara. Á Ravelry er hægt að tengja Nammi við prjónaverkefni - munið eftir því. Litirnir breytast í hverri vinnutörn því nýjar og spennandi blöndur verða til jafnóðum. Svo er aldeilis gleðiefni að ég hef fengið litunaraðstöðu á leigu hjá Textílfélagi Ísland sem rekur Textílverkstæðið Korpu á Korpúlfsstöðum.

mánudagur, 15. júní 2009

Þeir sætustu hingað til



Ég prjóna BSJ nokkuð stöðugt. Finnst svo gott að grípa í svona lítil verkefni inn á milli þeirra stærri. BSJ er líka uppskrift sem ekki er hægt að fá leið á og býður upp á endalausa möguleika í útfærslum - ólíkt garn, litir rendur, tölur - allt býður upp á óendanlega skemmtilega prjónaupplifun. Þessir tveir eru gerðir úr handlitaða garninu mínu. Sá rauði er úr Nammi - íslensku bandi sem ég lita heima og sel í Nálinni. Sá appelsínuguli er reyndar heimalituð shetlandsull - svoldið harðari útkoma en ofursætur. Tölurnar gera svo gæfumuninn. Þær fást í Nálinni. Ójá.

laugardagur, 13. júní 2009

Tvær húfur


Húfur eru skemmtilegar. Passlega litlar og bjóða upp á endalausa möguleika í útfærslum, garni, munstri og svo víðere. Sú blásvarta er úr BC Mohair fiori sem er blanda af mohair og merinoull. Allt annað líf að prjóna með mohair garni sem er ekki akrílblandaður óskundi. Úrtakan á þessari kemur út eins og X á kollinum, frekar brött úrtaka.

Sú græna er úr dönsku, lítið loðnu, mohair garni sem er gert í svo girnilegum litum að maður vill helst borða það. Fyrirtækið sem bjó það til er því miður farið á hausinn, skæl, skæl. Blómin heklaði ég og saumaði á eftirá. Húfan er með þríhyrndri úrtöku á kollinum. Passar á sex ára... eins og ískyggilega margt sem ég prjóna.

Uppskriftir af húfunum eru í vinnslu og verða gefins í Nálinni fljótlega.

miðvikudagur, 27. maí 2009

Peysan Rúna

Peysan Rúna hefur hangið í Nálinni undanfarnar vikur og sogað að sér prjónara sem langar að prjóna hana. Í dag hef ég þær gleðifréttir að færa að uppskriftin er tilbúin og fæst nú í Nálinni. Stærðirnar eru þrjár 3-12 mán, 2-3 ára og 4-7 ára hérumbil. Fullorðinsstærð er í vinnslu - uppskriftin verða fáanleg innan skamms. Prjón og gleði!

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Einband og alpaca og yndisleg útkoma


Þessi kostar ekki nema tvöþúsundkall í mesta lagi (fyrir utan vinnuna auðvitað). Einbandið er ótrúlega skemmtilegur efniviður og til í mörgum flottum litum - ég hef það fyrir satt að von sé á enn fleiri litum frá Ístex með vorinu. Í þessa peysu fóru um 3 dokkur af einbandi en svo ákvað ég að setja smá lúxuskanta á hana með geggjuðu dönsku alpacagarni. Peysan er þróuð eftir að ég prjónaði FLS - er prjónuð frá hálsi, garðaprjón fram og til baka og ermarnar sléttprjónaðar í hring. Endalausir möguleikar með svona flík!

fimmtudagur, 16. apríl 2009

"Stundum fer ég á fund"

Elsku litla stelpan mín hún Rúna Lóa tekur þátt í prjónaæði mömmunnar af fullum hug og hjarta. Henni finnst þetta allt voða spennandi og kann sannarlega að meta að ganga í heimaprjónuðum flíkum. Hún er að læra að puttaprjóna og fékk hjá mér himinbláa léttlopadokku til að æfa sig. Svo fann hún litla tösku til að nota fyrir puttaprjónatösku og sagði ábúðarfull "Stundum fer ég á puttaprjónafund". Tilkynning fylgdi á eftir um að hún hygðist taka myndir af puttaprjóninu til að setja í puttaprjónabókina sína. Ég er auðvitað að springa úr móðurstolti og sé fyrir mér mikinn snilling vera að stíga sín fyrstu prjónaskref. Yndislegt.

þriðjudagur, 31. mars 2009

Golla á Rúnu

Gat ekki setið á mér eftir stórkostlegu uppgötvunina um að peysur á að prjóna frá hálsi og niður... Skil bara ekki að þetta sé ekki útbreiddari aðferð en raun ber vitni. Þessa gollu prjónaði ég á Rúnu Lóu úr Kauni garni sem skiptir litum á leiðinni. Ofursæt á ofursætri stelpu. Byrjaði á 66l, nokkrar garðaprjónsumferðir efst og svo setti ég merki á laskaaukningastaðina - 35% bak og fram og 15% ermar - sirka. Fitjað upp 3l undir handvegi. Stórkostlega einfalt og fallegt. Peysan er með garðaprjón á jöðrum en að öðru leyti slétt. Í stað þess að gera brugðið á röngunni píndi ég mig til að "bakka" eins og er hægt að sjá hér neðst á síðunni undir "knitting back". Svoldið sniðugt.

Kambgarnsgrifflur

Ég fékk mér Knitpro sokkaprjóna um daginn og endurfæddist til sokkaprjóns (eða prjóns í hring með 5 prjónum). Þvílíkur munur. Þessir prjónar eru úr birki, mjúkir og fallegir á litinn og hreinlega allt annað að prjóna með þeim. Gerði þessar sætu grifflur úr kambgarni. Sniðugt, hræódýrt garn og til í öllum mögulegum litum.

Arndís með alpacatrefilinn

Hér er hjartkær stjúpsystir mín hún Arndís með trefilinn sem ég gaf henni í virðulega fertugsafmælisgjöf um daginn. Chunky alpaca frá BC, 200g, og blóm úr angora, mohair, merino og fairtrade filtkúlum sem við Halldóra keyptum eitt sinn frá Nepal. Stórir prjónar (7 minnir mig), garðaprjón. Mjúkt og gott og sætt á henni.

mánudagur, 23. mars 2009

BSJ á íslensku

Nú fæst hin goðsagnakennda uppskrift Elizabeth Zimmermann, Baby surprise jacket, í íslenskri þýðingu í Nálinni á Laugavegi 8. Meg Swansen, dóttir EZ var svo sæt að gefa ykkar einlægri leyfi til að þýða uppskriftina og salan í Nálinni er líka komin í gang í samráði við hana. Einfaldar málin talsvert fyrir íslenska prjónara sem eru að fá ískyggilegan áhuga á BSJ - ekki furða reyndar því peysan er algjört furðuverk og á sama tíma ótrúlega praktísk og falleg flík.
Þýðingin er algjörlega trú upprunalegu útgáfunni, Meg lagði mikla áherslu á það, og þess vegna er hún pínulítið torskilin fyrir þá sem ekki eru vanir uppskriftum EZ - enda var hún með eindæmum líbó prjónakona og lítið fyrir að festast um of í forminu.

Eftir að íslenska uppskriftin fór í umferð hef ég fengið allnokkrar spurningar um ákveðna staði í henni þar sem fólk virðist stranda. Hér koma því nokkur ráð til hjálpar:
  • Prjónastærð og garnþykkt ráða stærð peysunnar. Lykkjufjöldinn er alltaf sá sami.
  • Aukningar og úrtökur eru á réttunni - rangan er alltaf prjónuð til baka slétt (nema þegar fellt er af fyrir hálsmál og í hnappagataumferðinni).
  • Í stað þess að merkja lykkju 36 og 125 má merkja lykkjur nr 35 frá báðum endum, með prjónamerki sitt hvorum megin og gera síðan úrtökur/aukningar alltaf fyrir fyrra prjónamerkið og eftir það síðara á hvorum staðnum. Úrtökurnar má þá gera t.d. með 2l saman, prjónað aftan í öðrum megin og framan hinum megin. Þetta sparar talningar og gerir prjónið fljótlegra.
  • Útaukningin á fimmta garði - þarna er átt við að 9l eru búnar til við sitt hvorn endann, þ.e. áður en kemur að fyrra úrtökustaðnum og eftir þann síðari. Þetta verða ermaopin og aukningarnar láta ermarnar víkka aðeins.
  • Þar sem stendur "eftir 22 raðir" er átt við 22 garða.
  • Útaukning þegar 114 l eru á prjóni - þarna er 10 l bætt við með jöfnu millibili yfir lykkjurnar sem eru innan við hornin sem hafa myndast. Athugið að halda áfram að auka út 2 lykkjur sitt hvorum megin við merktu lykkjurnar líkt og fyrr þar til 158 lykkjur eru á prjóninum (=168-10l).
  • Þegar búið er að prjóna garðana 10 í miðju stykkisins eru lykkjur fyrst teknar upp á réttunni og prjónað til enda. Svo prjónað til baka (á röngunni) - en þá þarf að passa að lykkjurnar séu teknar upp frá sömu hlið svo útkoman verði falleg. Mér finnst gott að nota heklunál við þetta.
  • EZ er klók kona sem ráðleggur að gerð séu hnappagöt báðum megin -og svo hnappar saumaðir yfir götin á pólítískt réttum stað þegar vitað er hvort krílið sem á að fá peysuna er stúlka eða drengur. Þetta er auðvitað óþarfi ef peysan er prjónuð á kríli sem er þekkt stærð að þessu leyti.
  • Hér er að finna gagnlegasta hjálparplaggið sem ég hef rekist á á netinu. Þeir sem eiga uppskriftina skilja það og geta notað - eins og ráðin hér að ofan - þeim sem eiga hana ekki ráðlegg ég að festa kaup á henni hið snarasta. Athugið að uppskriftin er varin höfundarrétti og ljósritun, skönnun eða önnur dreifing er ólögleg.

fimmtudagur, 19. mars 2009

Fyrsta peysan sem ég prjóna á MIG


Já það er satt! Ég hef aldrei nennt að prjóna peysu á sjálfa mig... amk ekki peysu sem ég hef klárað og notað. En þessi uppskrift hennar Pam af Dömupeysu í febrúar (sjá að neðan) var svo djúsí að ég gat ekki haldið aftur af mér. Og hér er hún komin - reyndar löngu komin því ég kláraði hana að sjálfsögðu í febrúar - og nú þegar búið að nota hana mjög mikið. Garnið er grasgræn Shetlandsull frá BC (sem reyndar var þegar prjónað í hálfpeysu sem ég nennti aldrei að taka upp) og með henni tók ég kidmohair þráð í svoldið mosabrúnum lit. Prjónar númer fimm. Þeir sem þekkja uppskriftina vita að peysan er prjónuð ofanfrá, þ.e. fitjað upp á hálsmálið, og mér finnst það eina vitið í peysuprjóni. Maður hefur miklu betri yfirsýn yfir það sem er í gangi í prjóninu og getur mátað og látið peysuna passa svo miklu betur en með neðanfrá aðferðinni.

mánudagur, 16. mars 2009

BSJ með rauðkáli

Þessa yndislegu litlu stelpu á hún Ásta vinkona mín. Hún fékk þessa peysu frá mér (BSJ) um daginn þegar ég fór með gömlu hjúkkuvinkonum mínum yfir Hellisheiðina hræðilegu að hitta Ástuna okkar. Peysan er prjónuð úr mjúku og fallegu Silkbloom frá BC, sem fæst í Nálinni. 45% silki og 55% merinoull. Prjónar númer 4.5. Tölurnar eru eins og rauðkál - í raun eru þær pínulitlar en á myndinni virðast þær miklu stærri því litla stelpusnúllan er svo oggulítil.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

BSJ #1

Þetta er fyrsta Baby surprise peysan sem ég kláraði. Hún fór í jólapakka til Sögu litlu sætu frænku minnar í Uppsala. Í panikki kvöldið fyrir brottför þangað náði ég að mynda hana á eldhúsgólfinu (í rökkri, á símann). Garnið er hið undurmjúka Lucca merino frá BC, sem fæst að sjálfsögðu í Nálinni. Tölurnar eru líka þaðan - þær eru sítrónusneiðar. Skemmtilegasta prjón í heimi!!

Dömupeysa í febrúar


February lady sweater er æðisleg uppskrift eftir Pam Wynne sem hefur náð mikilli útbreiðslu á skömmum tíma - sérstaklega í gegnum http://www.ravelry.com/ (ef þú ert að lesa þetta og ert ekki á Ravelry ætla ég að biðja þig lengstra orða að drífa þig þangað inn). Pam er líka með mjög skemmtilega prjónasíðu. Ég fékk leyfi hjá Pam til að þýða uppskriftina yfir á íslensku - henni fannst það æði! Smelltu hér til að nálgast hana.