föstudagur, 24. nóvember 2006

Útgáfa handan við hornið


Bergur er búinn að hanna forsíðuna...

miðvikudagur, 22. nóvember 2006

Sokkar á prjónum


Keypti þetta Opalgarn á symässan... svona sjálfmunstrandi. Ekkert smá gaman að prjóna úr þessu því það er svo spennandi að sjá hvernig litirnir koma út. Ég er að prjóna sokka á sjálfa mig - aldrei þessu vant eitthvað fyrir mig. Ég gerð samt smá villu sem glámskyggnir prjónendur sjá kannski á myndinni. Eftir hælstykkið gerði ég úrtökuna ofan á ristinni í staðinn fyrir á ilinni - kórvilla en dæmigerð fyrir prjónandi uppreisnarsegg eins og mig. Því þarf ég nú að rekja upp og endurúrtaka eða endurtaka úr. En það er nú alltílagi fyrir svona stóíska og þolinmóða konu.

Bleiki hnykillinn


Þennan risastóra bleika hnykil keypti ég á Symässan um daginn. Þetta er frekar fínt bómullargarn, eiginlega heklugarn. Svo fann ég nokkra afgangshnykla í passandi litum og ákvað að byrja á "einhverju". Prjónar nr 2.5 held ég og bara sléttprjón í hring. Svo hugsaði ég og hugsaði... og loks rann upp fyrir mér ljós. Þetta verður pils á Rúnu Lóu!! Æstir fylgismenn lesprjónsbloggsins fá að sjálfsögðu að fylgjast með framgangi mála.

Prjónakona


Í dag var litla stelpan lasin heima með pabba sínum. Hann spurði hana hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór. Taldi svo upp ýmsar starfsgreinar (hjúkrunarkona, læknir ofl) sem henni eru hugleiknar um þessar mundir. Svo sat hún hugsi en sagði svo "ég ætla að verða prjónakona". Þetta bræddi nú alveg mömmuhjartað. Hún fær stundum að sitja í fanginu með hendurnar sínar á mínum þegar ég prjóna. Þannig að vonir standa til að tæknin osmósist inn í hana... amk hefur áhuginn gert það nú þegar.
Á myndinni er Rúna í lopapeysunni sem Slauga prjónaði fyrir Hlyn.

Lopapeysan að verða tilbúin



Hér er lopapeysan sem ég byrjaði á í febrúar 2005. Svo lá hún og beið lengi... og í sköpunarkastinu nýja prjónaði ég loksins axlastykkið. Núna er bara hálsmálið eftir og svo rennilás. Rúna Lóa er ennþá í Hlyns peysu sem Slauga Slaug prjónaði fyrir 13 árum. Hún er að verða of lítil svo að þessi verður tilbúin akkúrat á réttum tíma. Rúna er annars mikil lopapeysustelpa.

Biðukolla 2



Önnur biðukolla, sama uppskrift. Eyrún sæta fékk þessa í 6 ára afmælisgjöf. Hér eru kantur og blóm hekluð með íslenskum lopa, þrjár perlur í blóminu. Mohair garnið heitir Vienna og er til í ýmsum kreisí litum... hugsa að fleiri svona komi.

Biðukolla 1



Þessi loðna húfa er hekluð úr Mohair á grófa heklunál. Númer I... sko amerísk, veit ekki hvað það þýðir í millimetrum. Áðan bað Ásta mig um uppskriftina og hún er einhvern veginn svona: byrja efst, hekla hring og auka í slatta þar til hringur er orðinn sæmilega stór, hætta þá að auka og hekla áfram. Klára dokkuna og hekla svo kant í öðrum lit og blóm. Glöggir sjá kannski að þetta er fremur ónákvæm uppskrift... svoldið einsog eldamennskan mín. Kannski ætti ég að hemja mig og temja og fara að skrifa samviskusamlega lykkjufjölda eins og Halldóra Skarphéðinsdóttir vinkona mín og fyrirmynd í góðum siðum.

sunnudagur, 12. nóvember 2006

Hnerr hnerr

Mohair geit verður ekki mitt næsta gæludýr. Ég er búin að sitja í kvöld og hekla sæta græna húfu á Rúnu og hef hnerrað hundraðogsjötíusinnum við verkið. En það er vel þess virði því húfan verður mjög sæt og loðin, svo eiga að vera á henni nokkur blóm og í það minnsta ein kind. Mynd bráðum. Keypti líka boli í dag til að bródera - fyrir hina árlegu HM endurgreiðslu... ég fékk 600 kall í innleggi enda búin að strauja meðlimskortið extra í hvert skipti sem gestir hafa farið offari í fatakaupum. Ég ætla að bródera Ísland í boli sem fara til Japan og Sörunafn í bolinn sem fer til Söru sætu í Dusseldorf. Var líka svo heppin að fá "sorríviðskiptumumnafn" innleggsnótu í Akademibokhandeln og festi kaup á prjónabók - trallalla. Hún heitir Stitch'n'bitch Nation og fjallar um mjög hipp og kúl grasrótarprjónaskap í Ameríku.

laugardagur, 11. nóvember 2006

Hér er geitin


Hér er þessi líka hressa mohair geit. Bara að bíða eftir næstu rúningu eða eitthvað.

Dúlluskór


Hér eru sætir skór fyrir litla stelpu sem er alveg ný og býr í Osló. Hugmynd kom frá sjálfri Mörthu Stewart fyrirmynd kvenna í góðum siðum og gestrisni. Efnið er ullarfilt og blómið heklað úr mohair garni. Já vissuð þið að mohair garnið kemur af mohair geitinni... best að finna af henni mynd.

Bróderí


Keypti frábæra bók sem heitir "Baby Cool". Geggjaðar hugmyndir að breytingum á barnafötum og ótrúlega sniðugar saumauppskriftir. Til dæmis er samfestingur saumaður úr gamalli köflóttri skyrtu, galli saumaður úr gömlum Sex Pistols stuttermabol... já og bara allskonar flott. Höfundurinn er búningahönnuður í Dramaten og ekkert smá klár. Hún heldur workshops... og ég ætla að skipuleggja svoleiðis fyrir íslenskar kynsystur mínar hér í Stokkhólmi - nema hvað!!

Dótturdóttir í lopapeysu


Hér er fjölskyldumeðlimurinn Babyborn Rúnudóttir í hlýrri og notalegri lopapeysu sem amma hennar prjónaði algjörlega fríhendis. Munstrið er frumsamið eins og peysan öll. Svoldið skökk en ég er mjög montin af henni.

Barbie ávallt í tísku


Ég fór á brjálæðislega sauma- og prjónasýningu um daginn. Ég skoðaði kannski einn tíunda af básunum en það var alveg nóg til að fylla mig slíkri sköpunargleði að ég átti erfitt með svefn fyrir snilldarhugmyndum. Ég keypti smáveigis af garni, td risastóran hnykil með bleiku bómullargarni. Það fyrsta sem spratt fram úr þessum hnykli var þessi forláta sumarkjóll á Barbie. Á myndinni sést Barbie ljómandi ánægð með nýja kjólinn sinn en að sjálfsögðu alltaf elegant og afslöppuð.

Lopi og diskó


Hér eru heklaðir vetlingar úr plötulopa. Tók klukkutíma að prjóna hvorn. Mohairgarn heklað efst og hjartað saumað með lykkjuspori. Mjög kúl. Eins og ég segi... það er hipp og kúl að prjóna.

Handa litlum strák


Hér er svo ein prjónuð í einu stykki en á hlið. Þá er byrjað yst á annarri erminni og svo prjónað þvert yfir - mjög sætt. Svo í lokin eru líningar prjónaðar kringum öll opin. Reyndar byrjaði ég á henni ólétt, en fékk svo nóg af prjónaskap og var tæplega hálfnuð þegar ég lagði hana frá mér. Ég kláraði hana svo hér um daginn án uppskriftar því hana fann ég ekki - en það gekk ljómandi vel. Bara spegill. Lítill strákur í Japan á að fá þessa.

Eitt stykki


Það er svo gaman að búa til litla hluti... því maður klárar þá og fær þá kikkið. Hér er ein enn barnapeysan prjónuð þegar Rúna Lóa var í maganum. Hún er prjónuð í einu stykki, garðaprjón, og byrjað neðst á bakstykkinu... svo bara prjónað allaleið yfir. Þessi varð svoldið mjó og ermavíð enda prjónuð fríhendis sirkabát. Ullin er Dala-babyull sem má þvo á 40 (snilld). Tölurnar eru sætar appelsínusneiðar. Ég er ánægð með þessa.

Sjálfsstyrkingarelementið


Sko... kannski er tengingin ekki alveg augljós. En staðreyndin er sú að á hverju einasta gógóplatsi (geðdeild á Marðar Ingólfsku) er prjón hluti meðferðarinnar og á stóran þátt í að fólk nær að lokum ásættanlegri geðhestaheilsu. Það er þetta með að áorka einhverju, sjá eitthvað verða til og ánægjan sem fylgir því að klára verkið og NOTA það eða gefa einhverjum sem manni þykir vænt um. Ég vildi óska þess að ég hefði tekið myndir af öllu því sem ég hef skapað gegnum tíðina. En í stað þess að væla yfir því að hafa EKKI gert það ætla ég að byrja núna og reyna mitt best í að skrásetja allt samviskulega í framtíðinni. Myndirnar set ég á þetta blogg - svo þarf ég bara að kíkja á lesprjónsbloggið til að fá akút sjálfsstyrkingarskammt. Gott plan. Hér er mynd af einni afgangapeysu sem ég prjónaði á meðan Rúna Lóa var í maganum og ég lá með hið stórskemmtilega grindarlos og notaði tímann til að prjóna, ráða krossgátur og "leggja" kapal í gemsanum (stuð).

Einusinni var


Þegar ég var ung með augað í pung var ég allsvakalega dugleg við ýmisskonar handverk. 10 ára saumaði ég helling á bróður minn (Héðinn) með hjálp Grétu stjúpu minnar. Hún kenndi mér líka að applíkera. Einusinni fengu allar kerlingar fína tvöfalda taupoka í jólagjöf - svona baðherbergispunt. Á tímabili málaði ég litlar kindur á tau, saumaði litla kindapúða og tróð í vatti - úr þessu urðu litlar kindanælur eða ískkápasegulstál. Ég skar gler og bjó til fína lóðaða spegla með koparbaki. Í Háskólanum drýgði ég námslánin verulega með skartgripaframleiðslu, vír og perlur og töng... svo seldi ég hrúgur í hverjum frímínútum. Einusinni breytti ég eldhúsinu mínu í flísabrots og fúguverkstæði og bjó til fína mósaíkspegla. Ég hef löngum heklað röndótta bómullarpoka utanum allskonar. Þegar Maren var lítil (5 ára) prjónaði ég á hana bómullarpeysu sem varð ansi asnaleg í laginu en ég kláraði hana... og það var stuð. Svo var hún í uppáhaldslitum litlu sætu systur minnar "orange and greeeeen" sagði hún á ekta amerísku. Þegar Hlynur var í maganum á mér prjónaði ég svo peysu númer 2 (mynd), algjörlega fríhendis. Hún er mjúk og veðruð og hippaleg, Hlynur notaði hana frá 4 mánaða aldri og núna notar Rúna Lóa hana mikið.