fimmtudagur, 21. desember 2006

Fyrir höfuðstóra



Veit ekki hver ætti að fá þessa, hver er mjög höfuðstór sem ég þekki... hmmm? Hún er hekluð úr bláu mohair garni (toppur og kantur neðst) og einföldum plötulopa, mjóu gráu mohair plús glimmerþræði. Frekar sæt. Kannski prófa ég að þæfa hana í höndunum... ehm.

miðvikudagur, 20. desember 2006

Þæfing er list


Þessu komst ég að "the hard way". Var búin að hekla þessa fínu risastóru álfahúfu sem átti að passa á Rúnuhaus eftir þæfingu. Stakk henni í vél á 40 með einum gallabuxum og einu handklæði. Því er skemmst frá að segja að húfan varð pínulítil og passleg fyrir babyborn, sem reyndar bráðvantaði hlýja húfu. Samt fín.

Bleikur með blómapallíettum


Frábært þetta garn sem ég fann á ebay og fékk svo sent frá Tyrklandi á methraða fyrir smápening. Hér er það orðið að sætum stelputrefli sem fer í stelpujólapakka. Mjög einfalt að hekla. Maður byrjar á að hekla langt band, heklar svo stöpla eða pinna eða hvað þetta nú heitir, tvo í hverja lykkju alla leiðina til baka. Svo eina umferð í viðbót af stöplum, þá ein í hverja lykkju. Gaman að hafa hann svoldið langan svo að hann krullist skemmtilega um hálsinn.

Sjalatíð



Nú er mál að linni með húfur... eða þannig. Það er amk gott að hafa eitthvað annað á verkaskránni en bara húfur. Sjöl og treflar eru þess vegna í sterkri sókn um þessar mundir. Hér er ein fín vestfirsk hyrna prjónuð úr fínu Texas ullinni sem ég keypti á ebay. Fer líka í jólapakka!

Jólin koma


... og mér er sveimérþá að takast að prjóna og hekla alveg helling sem fer í pakka. Þó ekki til allra, enda er fjölskylda mín ónáttúrlega stór á alla mögulega mælikvarða. Hér er ein hekluð lopahúfa með bleikum pallíettublómagarnsbekk. Fer í einhvern pakka.

Áfram KR



Þeir sem þekkja mig vita að mig skortir gersamlega íþróttatilfinningar. Eiginlega er mér nákvæmlega sama hver vinnur hvað, nema kannski þegar Ragga frænka keppir í sundi. En Sindri minn heldur upp á KR og þá þótti mér sjálfsagt að bregðast snarlega við og prjóna á hann almennilega KR húfu. Þetta er einföld fastahekluð lopahúfa prjónuð frekar víð. Svo þótti mér þjóðráð að þæfa hana. 40 gráður í þvottavél á stuttu prógrammi og viti menn... húfan kom út doldið dvergsleg. En passar svona ljómandi vel á annan haus - nefnilega Ragnar Gauk sem að auki er Vesturbæjarstrákur og mun fyrr eða síðar verða KR-ingur.

þriðjudagur, 12. desember 2006

Ein enn


Hér er ein sem ég er nokkuð ánægð með. Bláa garnið er mohair og hvíta er alpaca ull. Kanturinn er tvöfaldur niðursaumaður fastaheklaður, húfan er hekluð í hálfpinnum. Mjúk og hlý og sæt. Reyndar frekar þröng en mun passa á einhvern lítinn sætan haus.

sunnudagur, 10. desember 2006

Muna að mynda


Nú hef ég prjónað og heklað af svo miklu kappi að fjölskyldunni þykir nóg um. Svo set ég í pakka og sendi um heiminn þveran. Hanako fær fína húfu og sjal, klassíska vestfirska hyrnu úr lopa og glimmerþræði!! En almáttugur hjálpi mér því ég gleymdi að mynda þessa ljómandi fallegu hluti og er búin að pakka inn og setja pakkann í pakka og merkja og svo fer þetta af stað til Tokyo í fyrró. Ég verð að muna að biðja hana að klæða sig í gjöfina og mynda og senda yfir... En í millitíðinni set ég inn sæta mynd af elsku Héðni mínum með hinn fagra son sinn Tabító Þór.

Pílagrímsferðir


Sumir fara til Mekka, í gamla daga fóru einhverjir til Rómar en ég fer í prjónabúðir í Stokkhólmi. Þær eru nokkrar en mishipp og miskúl. Ég reyni að sjálfsögðu að láta sjá mig í þeim svölu en hinar eru líka mikilvægar því þar er garnið gjarnan ódýrara. Hippu og kúlu búðirnar gegna samt öðruvísi hlutverki því þær veita svo mikinn innblástur. Endalausir litir, smart raðað í hillur, girnileg áferð, lyktin líka eitthvað góð og minnir á langömmuprjónaðan ullarsokk nýfrelsaðan úr jólapakka. Svo má nota innblásturinn úr fíneríisbúðunum til að prjóna fína hluti úr sparnaðargarni keyptu á ebay eða garnbónusbúðum eða úr íslenskri ull... já hún er nefnilega fáránlega ódýr. Lifi sauðkindin.

Texas - Stockholm


Ebay er dásamlegt fyrirbæri fyrir prjónara og garnsjúklinga. Hægt að kaupa garn úr öllum kimum heimsins á smábrot af verðinu skammarlega sem viðgengst hér á vesturhveli. Ég prófaði um daginn að panta forláta ullargarn allaleið frá Texas og það kom í vikunni. Gasalega mjúkt og fínt litaskiptigarn. Búin að hekla eina húfu sem fer í afmælispakka til Ernu stjúpu. Fastahekl neðst, hálfpinnar og svo fastahekl aftur í toppnum. Held að þetta séu hennar litir bigtime.

Líður að jólum


Í nóvember þegar ég var komin með alvarlega handavinnubakteríusýkingu þótti mér sjálfsagt mál að allir fengju prjónaðar eða heklaðar eða ísaumaðar jólagjafir í ár. Það rætist reyndar að hluta því allnokkrir fá mjúka pakka með hlýjum gjöfum. Myndin er af bolnum sem Sara litla frænka í Þýskalandi fær ásamt dulitlum prinsessubúnaði sem þykir nauðsynlegur fyrir þriggja ára dömur.

Álfurinn litli


Mér áskotnaðist forláta heklunál númer 9 úr ekta plasti. Handavinnugyðjan Halldóra Skarphéðinsdóttir lét hana af hendi rakna af einskærri rausn. Þá fór tíminn á húfuhekli niður í 36 mínútur umþaðbil. Ég er búin að hekla og prjóna agalega fín húfutreflasett á mig og Rúnu Lóu úr mohair og lopa. Rúna er auðvitað eins og lítil álfaskessa í þessarri múnderingu. Mitt sett er úr blágrænu móheri og hvítum lopa og í því er ég um það bil eins og stóra skessan sem sagði þeirri litlu að sækja stóra nautið hans föður síns í ákveðinni sögu sem við þekkjum öll.