sunnudagur, 10. desember 2006

Pílagrímsferðir


Sumir fara til Mekka, í gamla daga fóru einhverjir til Rómar en ég fer í prjónabúðir í Stokkhólmi. Þær eru nokkrar en mishipp og miskúl. Ég reyni að sjálfsögðu að láta sjá mig í þeim svölu en hinar eru líka mikilvægar því þar er garnið gjarnan ódýrara. Hippu og kúlu búðirnar gegna samt öðruvísi hlutverki því þær veita svo mikinn innblástur. Endalausir litir, smart raðað í hillur, girnileg áferð, lyktin líka eitthvað góð og minnir á langömmuprjónaðan ullarsokk nýfrelsaðan úr jólapakka. Svo má nota innblásturinn úr fíneríisbúðunum til að prjóna fína hluti úr sparnaðargarni keyptu á ebay eða garnbónusbúðum eða úr íslenskri ull... já hún er nefnilega fáránlega ódýr. Lifi sauðkindin.

Engin ummæli: