þriðjudagur, 13. janúar 2009

Skrímslabolur Tabitó Þórs


Litli sæti bróðursonur minn sem á heima í Tokyo fékk þennan sæta skrímslabol í jólagjöf. Ég kaupi oft einfalda bómullarboli á útsölum og á þá til í skúffu... svo þegar jól og afmæli koma sauma ég í. Mjög oft nöfn barnanna - sjá neðar á blogginu - en núna er ég líka farin að sauma litlar fígúrur eins og þetta sæta skrímsli. Það er með pallíettuaugu og tölur á fálmurunum.

mánudagur, 12. janúar 2009

Mögguslá


Elsku Magga frænka í Uppsala fékk gataslá í afmælisgjöf. Uppskriftin er í "Slip maskerne lös" hinni stórkostlegu bók eftir Lotte Kjær. Sláin er þessi bleika á forsíðunni. Hér í svörtu mohair bouclé frá BC garn (Nálin), sést ekkert gasalega vel... nema að hún er mjög smart flík. Ég náði að mynda hana áður en hún fór í pakkann á menningar- og handverksheimili Halldóru Sk. í Vallentuna. Fyrirsætan er ég.

Lítið lopasjal handa Ernu

Erna góða stjúpa fékk þetta lopasjal. Uppskriftin er lítið lopasjal úr hinni goðsagnakenndu bók "Þríhyrnur og langsjöl". Tvöfaldur plötulopi og loðband sem skiptast á 2 og 2 umferðir. Munstrið er krónuprjón og í raun ótrúlega einfalt miðað við hvað útkoman er falleg. Það eina sem maður þarf að kunna er að slá bandinu upp á prjóninn, prjóna tvær saman, slétt og brugðið... ekki flókið.

Helga mín fékk silkikraga


Uppskriftin er í Prjóniprjón. Garnið er dásamlega handspunna himalaya silkigarnið frá BC garn (Nálin). Þessi uppskrift er svo fín ef garnið er frekar gróft og óreglulegt, þykkt og þunnt á víxl. Malabrigo er æði, líka point five frá Colinette. Helga var voða kát og byrjaði strax að nota kragann.

Jólagjafir: Álfrún krútt fékk jólasveinahúfu


Uppskriftin er sirka svona:
Garn: Angora (hvítt), Loðband/einband (rautt)
Prjónar: 40 cm hringprjónn nr. 6 og sokkaprjónar nr.6 – eða langur hringprjónn nr. 6.
Stærðir: 0-2 (3-5 ára) 5-10 ára (fullorðins)
Ath. mjög gott er að prjóna húfur á langan hringprjón (100 cm eða lengri). Þannig þarf ekki að skipta yfir á sokkaprjóna þegar húfan þrengist efst.
Aðferð:Fitjið upp 45 (50) 60 (70) lykkjur með tvöföldu hvítu angoragarni á prjón númer 6. Tengið í hring og byrjið að prjóna stroff: 3 sléttar og 2 brugðnar til skiptis. Þegar stroffið mælist 5(6)7(9) cm er skipt yfir í rauða garnið (tvöfalt loðband/einband) og prjónuð ein umferð slétt. Í næstu umferð er aukið út um 3(4)4(5) lykkjur jafnt yfir umferðina (hafið um það bil jafn margar lykkjur á milli, annars þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt). Aukið út svona: takið bandið milli lykkjanna upp á vinstri prjóninn, prjónið í það snúið, þannig myndast ný lykkja.
Urtökur:Þegar húfan mælist 14 (15) 16 (18) cm: Prjónið 2 l saman 5(6)6(7) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 17(19)20(23) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 22(23)25(30) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 25(27)29(35) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.Hér eftir eru úrtökur með 2 cm millibili – 2-4 sinnum í hverri úrtökuröð fyrir allar stærðir þar til alls 6-10 l eru eftir á prjónunum. Prjónið þá 2 og 2 saman út umferðina – slítið bandið og dragið í gegnum lykkjurnar sem eru eftir.


Kannski furðar einhver sig á birtingu jólasveinahúfuuppskriftar nú rétt eftir áramótin - þetta er samt einmitt rétti tíminn til að prjóna húfur fyrir næstu jól til að sleppa við tímapressu og panikk þegar fitjað er upp um miðjan desember næstkomandi... Fyrirhyggja!

Prjóniprjónaævintýri

Vá maður! Síðan síðasta innlegg var skrifað hefur öll prjónaorka farið í útgáfu Prjóniprjóns (og reyndar slatti í jólagjafaprjón - birti afrakstur hér fljótlega). Viðtökurnar hafa líka verið dásamlegar og salan framar villtustu vonum. Prjóniprjón lenti í mörgum jólapökkum og ég veit um nokkra sem vonuðust eftir henni en fengu ekki og skiptu þess vegna einhverju öðru í Prjóniprjón. Það yndislega við prjónara er ólæknandi árátta þeirra til að deila með sér. Flestir sem byrja að prjóna breytast í einhvers konar prjónatrúboða og tala stöðugt um prjón og garn og uppskriftir og prjóna og tölur og kanta og nýjar uppáfitjunaraðferðir og prjónablogg og prjónavídeó og blöð og bækur. Þetta hefur verið algjör lykill að velgengni bókarinnar því ekki höfðum við Halldóra mikið auglýsingafé milli handanna. Við erum þegar komnar með helling af efni í næstu bók og erum að plana þýðingu á þeirri fyrstu yfir á ensku. Þúsund þakkir og kossar til allra prjóniprjónara - munið líka að mynda prjónaverkin og senda okkur á prjoniprjon@gmail.com - við birtum myndir og sögur á http://www.prjoniprjon.blogspot.com/. Lifi prjónið!