mánudagur, 12. janúar 2009

Jólagjafir: Álfrún krútt fékk jólasveinahúfu


Uppskriftin er sirka svona:
Garn: Angora (hvítt), Loðband/einband (rautt)
Prjónar: 40 cm hringprjónn nr. 6 og sokkaprjónar nr.6 – eða langur hringprjónn nr. 6.
Stærðir: 0-2 (3-5 ára) 5-10 ára (fullorðins)
Ath. mjög gott er að prjóna húfur á langan hringprjón (100 cm eða lengri). Þannig þarf ekki að skipta yfir á sokkaprjóna þegar húfan þrengist efst.
Aðferð:Fitjið upp 45 (50) 60 (70) lykkjur með tvöföldu hvítu angoragarni á prjón númer 6. Tengið í hring og byrjið að prjóna stroff: 3 sléttar og 2 brugðnar til skiptis. Þegar stroffið mælist 5(6)7(9) cm er skipt yfir í rauða garnið (tvöfalt loðband/einband) og prjónuð ein umferð slétt. Í næstu umferð er aukið út um 3(4)4(5) lykkjur jafnt yfir umferðina (hafið um það bil jafn margar lykkjur á milli, annars þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt). Aukið út svona: takið bandið milli lykkjanna upp á vinstri prjóninn, prjónið í það snúið, þannig myndast ný lykkja.
Urtökur:Þegar húfan mælist 14 (15) 16 (18) cm: Prjónið 2 l saman 5(6)6(7) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 17(19)20(23) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 22(23)25(30) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 25(27)29(35) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.Hér eftir eru úrtökur með 2 cm millibili – 2-4 sinnum í hverri úrtökuröð fyrir allar stærðir þar til alls 6-10 l eru eftir á prjónunum. Prjónið þá 2 og 2 saman út umferðina – slítið bandið og dragið í gegnum lykkjurnar sem eru eftir.


Kannski furðar einhver sig á birtingu jólasveinahúfuuppskriftar nú rétt eftir áramótin - þetta er samt einmitt rétti tíminn til að prjóna húfur fyrir næstu jól til að sleppa við tímapressu og panikk þegar fitjað er upp um miðjan desember næstkomandi... Fyrirhyggja!

Engin ummæli: