mánudagur, 9. apríl 2007

Pils á dag


Þetta pils var prjónað á nokkrum klukkutímum. Prjónar nr. 6 og allskonar garn. Byrjað neðst með 108 l, tekið úr á ca. 7cm fresti 8-10 hver lykkja. Teygja í mittið. Sjúklega fljótlegt og einfalt.

Trefill úr Colinette


Þetta prjónamunstur rakst ég á í nýju prjónabúðinni Knitlab sem var að opna á Söder. Ég píndi búðarkonuna til að kenna mér og fór svo beint heim að prjóna. Þetta lítur út fyrir að vera flóknara en það er... ég lofa! Kemur ekkert smá vel út með þessu garni sem er mislitt og misþykkt og einstaklega mjúkt. Við Rúna eigum þennan saman. Passar bundinn á hana og nældur eins og kragi á mig.

Rúna í silkikjól

Hér er elsku litla skottan mín í fína silkikjólnum. Mjög ánægð með hann enda bleikur og glimmer.

föstudagur, 6. apríl 2007

Hálflingar


Mér datt í hug að prjóna eitthvað fljótlegt og ákvað að gera handstúkur/mudda (það er svona úlnliðastroff oft haft með einhverju skrauti). Prjónar nr. 9, fjórfaldur plötulopi, fitjað upp á 18l, 2sl og 2br prjónað sirka 7cm. Aukið út 2l og haldið áfram að prjóna slétt. Þarna ákvað ég að gera ekki mudda heldur hálfvettlinga í staðinn. Prjónað að þumli, þá felldar af 3l fyrir þumalgat. Í næstu umf er bandi slegið upp á 2x f ofan affelldu lykkjurnar. Í umf þar á eftir eru uppslættirnir prjónaðir aftan í bandið og aukið í 2l annars staðar í hringnum. Prjónað áfram þar til nær fram á puttana og fellt af br. Heklað utanum fingraop og þumalop með einhverju smart effektgarni. Ég notaði sjúklega mjúkt og flott bleikt nælongarn sem heitir Amelie. Mohair, glimmer, eyelash, ribbon eða hvað sem er væri fínt í þetta. Svo er hægt að skreyta með pallíettum, perlum eða einhverju fíneríi... það fer svo vel við grófa ullina. Sá græni er úr 2x plötulopa, aðeins minni. Hvíta er mohair.

Möbíus Ragnheiðarson

Jæja hér er hann. Mér fannst hann orðinn eitthvað svo breiður að ég felldi af þrátt fyrir eiga eftir slatta af garninu. Svo reyndist hann vera ansi mjór greyið, en fallegur að sama skapi. Ég er búin að nota hann helling tvívafinn um hálsinn. Samt er planið að rekja upp affellinguna og prjóna restina af garninu. Svona við tækifæri.

fimmtudagur, 5. apríl 2007

Ég er snillingur!




Nú er ærin ástæða til monts. Ég er búin að prjóna fínasta stelpukjól í heimi á elsku litlu Rúnu mína. Kjóllinn er hannaður af mér sjálfri... jafnóðum meira að segja. Hann er að mestu úr silkigarni sem er prjónað slétt ásamt bleikum glimmerþræði. Kantur og hlírar að ofan og kanturinn að neðan eru úr ekólógískri bómull (regnbåge) sem er handlituð. Ein rönd af marglitu borðagarni er á milli silkisins og bómullarinnar að neðan. Ég er svooo ánægð!!
Svona gerði ég kjólinn:
Hringprjónn 40 cm nr. 5.5. Fitjað upp 110l með bómull. Prj sl fram og til baka 3 cm. Tengt saman í hring og pr 2 umf sl. Miðjulykkja fundin og merkt. Nú er aukið í sitt hvorum megin við miðjulykkju með því að slá bandi upp á prjóninn báðum megin við miðjulykkjuna og prjóna allar lykkjur sléttar í næstu umf. Þetta er gert 4x. Svo er prjónað og prjónað eins lengi og maður hefur þolinmæði til. Þegar mál er að linni kemur svo ein umferð með borðagarni - hér væri líka smart að nota annað effectgarn s.s. mohair, eyelash eða salsa. Svo er skipt yfir í bómullina aftur. 1 umf sl. Í næstu umf er prjónað 2x í hverja lykkju, framan og aftan. Prjónað sl ca 2 cm og endað á 3 umf sem eru pr 2sl og 2br til skiptis. Fellt af. Hlírar prjónaðir síðast. Ég notaði pr nr 2.5 og tók upp 12 l sitt hvorum megin 6l frá miðju. Pr sl 47 umf og fellt af. Hlírar saumaðir fastir að aftan, bilinu efst lokað og gengið frá öllum endum.
Ég get ekki beðið eftir að láta Rúnu prófa á morgun þegar hún vaknar.