þriðjudagur, 31. mars 2009

Golla á Rúnu

Gat ekki setið á mér eftir stórkostlegu uppgötvunina um að peysur á að prjóna frá hálsi og niður... Skil bara ekki að þetta sé ekki útbreiddari aðferð en raun ber vitni. Þessa gollu prjónaði ég á Rúnu Lóu úr Kauni garni sem skiptir litum á leiðinni. Ofursæt á ofursætri stelpu. Byrjaði á 66l, nokkrar garðaprjónsumferðir efst og svo setti ég merki á laskaaukningastaðina - 35% bak og fram og 15% ermar - sirka. Fitjað upp 3l undir handvegi. Stórkostlega einfalt og fallegt. Peysan er með garðaprjón á jöðrum en að öðru leyti slétt. Í stað þess að gera brugðið á röngunni píndi ég mig til að "bakka" eins og er hægt að sjá hér neðst á síðunni undir "knitting back". Svoldið sniðugt.

Kambgarnsgrifflur

Ég fékk mér Knitpro sokkaprjóna um daginn og endurfæddist til sokkaprjóns (eða prjóns í hring með 5 prjónum). Þvílíkur munur. Þessir prjónar eru úr birki, mjúkir og fallegir á litinn og hreinlega allt annað að prjóna með þeim. Gerði þessar sætu grifflur úr kambgarni. Sniðugt, hræódýrt garn og til í öllum mögulegum litum.

Arndís með alpacatrefilinn

Hér er hjartkær stjúpsystir mín hún Arndís með trefilinn sem ég gaf henni í virðulega fertugsafmælisgjöf um daginn. Chunky alpaca frá BC, 200g, og blóm úr angora, mohair, merino og fairtrade filtkúlum sem við Halldóra keyptum eitt sinn frá Nepal. Stórir prjónar (7 minnir mig), garðaprjón. Mjúkt og gott og sætt á henni.

mánudagur, 23. mars 2009

BSJ á íslensku

Nú fæst hin goðsagnakennda uppskrift Elizabeth Zimmermann, Baby surprise jacket, í íslenskri þýðingu í Nálinni á Laugavegi 8. Meg Swansen, dóttir EZ var svo sæt að gefa ykkar einlægri leyfi til að þýða uppskriftina og salan í Nálinni er líka komin í gang í samráði við hana. Einfaldar málin talsvert fyrir íslenska prjónara sem eru að fá ískyggilegan áhuga á BSJ - ekki furða reyndar því peysan er algjört furðuverk og á sama tíma ótrúlega praktísk og falleg flík.
Þýðingin er algjörlega trú upprunalegu útgáfunni, Meg lagði mikla áherslu á það, og þess vegna er hún pínulítið torskilin fyrir þá sem ekki eru vanir uppskriftum EZ - enda var hún með eindæmum líbó prjónakona og lítið fyrir að festast um of í forminu.

Eftir að íslenska uppskriftin fór í umferð hef ég fengið allnokkrar spurningar um ákveðna staði í henni þar sem fólk virðist stranda. Hér koma því nokkur ráð til hjálpar:
  • Prjónastærð og garnþykkt ráða stærð peysunnar. Lykkjufjöldinn er alltaf sá sami.
  • Aukningar og úrtökur eru á réttunni - rangan er alltaf prjónuð til baka slétt (nema þegar fellt er af fyrir hálsmál og í hnappagataumferðinni).
  • Í stað þess að merkja lykkju 36 og 125 má merkja lykkjur nr 35 frá báðum endum, með prjónamerki sitt hvorum megin og gera síðan úrtökur/aukningar alltaf fyrir fyrra prjónamerkið og eftir það síðara á hvorum staðnum. Úrtökurnar má þá gera t.d. með 2l saman, prjónað aftan í öðrum megin og framan hinum megin. Þetta sparar talningar og gerir prjónið fljótlegra.
  • Útaukningin á fimmta garði - þarna er átt við að 9l eru búnar til við sitt hvorn endann, þ.e. áður en kemur að fyrra úrtökustaðnum og eftir þann síðari. Þetta verða ermaopin og aukningarnar láta ermarnar víkka aðeins.
  • Þar sem stendur "eftir 22 raðir" er átt við 22 garða.
  • Útaukning þegar 114 l eru á prjóni - þarna er 10 l bætt við með jöfnu millibili yfir lykkjurnar sem eru innan við hornin sem hafa myndast. Athugið að halda áfram að auka út 2 lykkjur sitt hvorum megin við merktu lykkjurnar líkt og fyrr þar til 158 lykkjur eru á prjóninum (=168-10l).
  • Þegar búið er að prjóna garðana 10 í miðju stykkisins eru lykkjur fyrst teknar upp á réttunni og prjónað til enda. Svo prjónað til baka (á röngunni) - en þá þarf að passa að lykkjurnar séu teknar upp frá sömu hlið svo útkoman verði falleg. Mér finnst gott að nota heklunál við þetta.
  • EZ er klók kona sem ráðleggur að gerð séu hnappagöt báðum megin -og svo hnappar saumaðir yfir götin á pólítískt réttum stað þegar vitað er hvort krílið sem á að fá peysuna er stúlka eða drengur. Þetta er auðvitað óþarfi ef peysan er prjónuð á kríli sem er þekkt stærð að þessu leyti.
  • Hér er að finna gagnlegasta hjálparplaggið sem ég hef rekist á á netinu. Þeir sem eiga uppskriftina skilja það og geta notað - eins og ráðin hér að ofan - þeim sem eiga hana ekki ráðlegg ég að festa kaup á henni hið snarasta. Athugið að uppskriftin er varin höfundarrétti og ljósritun, skönnun eða önnur dreifing er ólögleg.

fimmtudagur, 19. mars 2009

Fyrsta peysan sem ég prjóna á MIG


Já það er satt! Ég hef aldrei nennt að prjóna peysu á sjálfa mig... amk ekki peysu sem ég hef klárað og notað. En þessi uppskrift hennar Pam af Dömupeysu í febrúar (sjá að neðan) var svo djúsí að ég gat ekki haldið aftur af mér. Og hér er hún komin - reyndar löngu komin því ég kláraði hana að sjálfsögðu í febrúar - og nú þegar búið að nota hana mjög mikið. Garnið er grasgræn Shetlandsull frá BC (sem reyndar var þegar prjónað í hálfpeysu sem ég nennti aldrei að taka upp) og með henni tók ég kidmohair þráð í svoldið mosabrúnum lit. Prjónar númer fimm. Þeir sem þekkja uppskriftina vita að peysan er prjónuð ofanfrá, þ.e. fitjað upp á hálsmálið, og mér finnst það eina vitið í peysuprjóni. Maður hefur miklu betri yfirsýn yfir það sem er í gangi í prjóninu og getur mátað og látið peysuna passa svo miklu betur en með neðanfrá aðferðinni.

mánudagur, 16. mars 2009

BSJ með rauðkáli

Þessa yndislegu litlu stelpu á hún Ásta vinkona mín. Hún fékk þessa peysu frá mér (BSJ) um daginn þegar ég fór með gömlu hjúkkuvinkonum mínum yfir Hellisheiðina hræðilegu að hitta Ástuna okkar. Peysan er prjónuð úr mjúku og fallegu Silkbloom frá BC, sem fæst í Nálinni. 45% silki og 55% merinoull. Prjónar númer 4.5. Tölurnar eru eins og rauðkál - í raun eru þær pínulitlar en á myndinni virðast þær miklu stærri því litla stelpusnúllan er svo oggulítil.