föstudagur, 14. september 2007

Skott með Noro húfu


Hér er mín yndislega dóttir með einfalda húfu úr Noro Silk Garden garni. Noro garnið er japanskt og alveg dásamlega fallegt, marglitt og fínt. Húfan er prjónuð á klukkutíma (enn eitt verkefnið fyrir þá sem vilja snögg afköst og ekkert vesen), og er sáraeinföld: prjónar nr. 4,5, fitjað upp sirka 70l (farið bara eftir prjónfestu, svo er bara prjónað 2sl og 2br næstum upp allan hausinn, svo teknar 2br saman einn hring, prjónað smá svo teknar 2sl einn hring og svo 2 og 2 saman þar til örfáar l eru eftir og bandið dregið í gegnum þær. Frábært að nota svona Noro garn því húfan lítur út fyrir að vera prjónuð með milljón mismunandi litum og allir halda að prjónarinn sé algjör snillingur.

Respect Helga


Viljiði sjá þetta dásamlega teppi sem hún Helga Harðardóttir ofurprjónaljósmóðir og vinkona mín gerði. Ég sat svona í sæluvímu og gat vart mælt í lengri tíma þegar ég fékk það í hendurnar. Þetta er á minni prjónadagskrá fyrir veturinn 07-08, ekki spurning! Helga er annars mikil fyrirmynd í prjónaskap og hefur töfrað fram ótrúlega fallegar og flóknar flíkur. Það er líka sagt að prjón sé agalega góð iðja fyrir ljósmæður... næmi í fingrum.

fimmtudagur, 13. september 2007

Húfa fyrir mig


Bleika garnið er mjúkt og gervi en samt alveg ómótstæðilegt, fékk það í Knitlab. Þetta er ósköp venjuleg frelsishúfa gerð úr mohair og þessu bleika og einhverju smá glimmeri (alltaf gott að hafa glimmer með), hekluð á grófa nál - númer 8 kannski. Svoldið víð neðst... held ég þrengi hana aðeins fyrir veturinn. Það er nefnilega snilldin við frelsishúfurnar... alltaf hægt að hekla neðan á þær ef þær tildæmis þurfa að lengjast eða þrengjast.

Kjóll fyrir sæta stelpu


Þennan kjól prjónaði ég í vor (07) úr frekar þykku bómullargarni frá Knitlab í Stokkhólmi. Blómið er úr einhverju mohair með perlu í miðjunni. Hlírar og kantur úr einhverju loðnu og þykku alpaka garni sem ég fékk á útsölu dauðans í Nysta. Álfrún litla sæta skott fékk kjólinn. Þessi kjóll er prjónaður á klukkutíma... I kid you not!