mánudagur, 5. mars 2007

Hamin nákvæmni


Halldóra Hnykill prjónavinkona (og almenn vinkona mín) í Stokkhólmi er mjög mikið að reyna að pína mig til að skrifa niður uppskriftir fyrir dótið sem ég prjóna og hekla. Nú hefur henni tekist ætlunarverkið því ég hef nákvæmlega skráð hvernig þetta guðdómlega poncho var búið til. Haldið ykkur fast; eftirfarandi garn var notað: Rowan silk tweed í grasgrænum lit, grænt kid mohair, þrír grænir litir af loðbandi, ljósgrænn plötulopi, grænt Sandnes Tove garn, gullgarn og marglitt salsagarn. Púff... Garnið nota ég í mismunandi samsetningum, 2 eða 3 þræði saman. Með þessu fæst skemmtileg og óregluleg áferð. Prjónar númer átta efst og svo númer tíu, tvö eins stykki prjónuð og saumuð saman eftirá. Semsagt byrjað efst fitjað upp 25 l og prjónað 2 cm, miðjulykkjan fundin og merkt. Svo byrjað að auka í, 2 l í annari hvorri umferð - sitt hvorum megin við miðjulykkju. Ég jók í með því að prjóna framan og aftan í lykkjuna, en það má svosum nota aðrar aðferðir. Eftir 19, 24 og 28 cm var svo tekið úr fyrir axlir, þ.e. tvær fyrstu og tvær síðustu lykkjur prjónaðar saman (alls þrisvar. Þegar tekið er úr er samt haldið áfram að auka í við miðjulykkjuna. Þegar stykkið er orðið ca 35 cm eru prjónaðir 2 cm neðst án þess að auka í. Svo fellt af með skrautlegu garni. Ath að það má víxla sléttu og garðaprjóni til að búa til skemmtilega áferð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir ahugaverd blog