fimmtudagur, 15. október 2009

Jólasveinahúfa


Hér er uppskrift af jólasveinahúfu sem ég snaraði fram síðustu jól. Þegar prjónandi móðir er beðin um svoleiðis af lítilli nývaknaðri stúlku í desember er ekki annað hægt en að standa sig. Á myndinni er Álfrún sem fékka eina í sinn jólapakka.

Garn: Angora (hvítt), Loðband/einband (rautt)


Prjónar: 40 cm hringprjónn nr. 6 og sokkaprjónar nr.6 – eða langur hringprjónn nr. 6.

Stærðir: 0-2 (3-5 ára) 5-10 ára (fullorðins)

Ath. mjög gott er að prjóna húfur á langan hringprjón (100 cm eða lengri). Þannig þarf ekki að skipta yfir á sokkaprjóna þegar húfan þrengist efst.

Aðferð:
Fitjið upp 45 (50) 60 (70) lykkjur með tvöföldu hvítu angoragarni á prjón númer 6. Tengið í hring og byrjið að prjóna stroff: 3 sléttar og 2 brugðnar til skiptis. Þegar stroffið mælist 5(6)7(9) cm er skipt yfir í rauða garnið (tvöfalt loðband/einband) og prjónuð ein umferð slétt. Í næstu umferð er aukið út um 3(4)4(5) lykkjur jafnt yfir umferðina (hafið um það bil jafn margar lykkjur á milli, annars þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt). Aukið út svona: takið bandið milli lykkjanna upp á vinstri prjóninn, prjónið í það snúið, þannig myndast ný lykkja.

Urtökur:
Þegar húfan mælist 14 (15) 16 (18) cm: Prjónið 2 l saman 5(6)6(7) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 17(19)20(23) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 22(23)25(30) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð.
Þegar húfan mælist 25(27)29(35) cm: Prjónið 2l saman 4(5)5(6) sinnum með jöfnu millibili í næstu umferð. Hér eftir eru úrtökur með 2 cm millibili – 2-4 sinnum í hverri úrtökuröð fyrir allar stærðir þar til alls 6-10 l eru eftir á prjónunum. Prjónið þá 2 og 2 saman út umferðina – slítið bandið og dragið í gegnum lykkjurnar sem eru eftir. Búið til dúsk og gangið stolt um götur með jólasveinahúfu á höfði!

5 ummæli:

Anna sagði...

Sæl Ragga og takk fyrir uppskrift að flottri húfu. Hvað meinar þú þegar þú segir að ekki þurfi að skipta yfir á sokkaprjóna ef notaður er langur hringprjónn? Er til einhver prjónaaðferð sem losar mann undan oki sokkaprjónanna?
Kveðja,
Anna

Halla Sverrisdóttir sagði...

Fín uppskrift - ég impróvíseraði smá og prjónaði stroffið með perluprjóni, það kom mjög fallega út - varð svolítið "dúllulegra", þó hitt sé fallegt líka. Hvar er hægt að kaupa fallega dúska? Nenni hreinlega ekki að föndra þá sjálf!

prjónakveðja, Halla

Steinunn sagði...

eru þetta virkilega bara 50 lykkjur? lítur eitthvað duló út...

Nafnlaus sagði...

Ég heiti Katrín og er 12ára. Ég er mikil prjónakona og elska þessa húfu sem ég prjónaði. Það tók mig rúma tvo daga að prjóna þessa húfu. Fyrir stroffið notaði ég silki alpaka. Það er algjört æði.
Takk fyrir frábæra uppskrift,
Katrín

Nafnlaus sagði...

Ég heiti halldora og ég prófaði líka að prjona þær úr tvöföldu kambgarni