mánudagur, 23. mars 2009

BSJ á íslensku

Nú fæst hin goðsagnakennda uppskrift Elizabeth Zimmermann, Baby surprise jacket, í íslenskri þýðingu í Nálinni á Laugavegi 8. Meg Swansen, dóttir EZ var svo sæt að gefa ykkar einlægri leyfi til að þýða uppskriftina og salan í Nálinni er líka komin í gang í samráði við hana. Einfaldar málin talsvert fyrir íslenska prjónara sem eru að fá ískyggilegan áhuga á BSJ - ekki furða reyndar því peysan er algjört furðuverk og á sama tíma ótrúlega praktísk og falleg flík.
Þýðingin er algjörlega trú upprunalegu útgáfunni, Meg lagði mikla áherslu á það, og þess vegna er hún pínulítið torskilin fyrir þá sem ekki eru vanir uppskriftum EZ - enda var hún með eindæmum líbó prjónakona og lítið fyrir að festast um of í forminu.

Eftir að íslenska uppskriftin fór í umferð hef ég fengið allnokkrar spurningar um ákveðna staði í henni þar sem fólk virðist stranda. Hér koma því nokkur ráð til hjálpar:
  • Prjónastærð og garnþykkt ráða stærð peysunnar. Lykkjufjöldinn er alltaf sá sami.
  • Aukningar og úrtökur eru á réttunni - rangan er alltaf prjónuð til baka slétt (nema þegar fellt er af fyrir hálsmál og í hnappagataumferðinni).
  • Í stað þess að merkja lykkju 36 og 125 má merkja lykkjur nr 35 frá báðum endum, með prjónamerki sitt hvorum megin og gera síðan úrtökur/aukningar alltaf fyrir fyrra prjónamerkið og eftir það síðara á hvorum staðnum. Úrtökurnar má þá gera t.d. með 2l saman, prjónað aftan í öðrum megin og framan hinum megin. Þetta sparar talningar og gerir prjónið fljótlegra.
  • Útaukningin á fimmta garði - þarna er átt við að 9l eru búnar til við sitt hvorn endann, þ.e. áður en kemur að fyrra úrtökustaðnum og eftir þann síðari. Þetta verða ermaopin og aukningarnar láta ermarnar víkka aðeins.
  • Þar sem stendur "eftir 22 raðir" er átt við 22 garða.
  • Útaukning þegar 114 l eru á prjóni - þarna er 10 l bætt við með jöfnu millibili yfir lykkjurnar sem eru innan við hornin sem hafa myndast. Athugið að halda áfram að auka út 2 lykkjur sitt hvorum megin við merktu lykkjurnar líkt og fyrr þar til 158 lykkjur eru á prjóninum (=168-10l).
  • Þegar búið er að prjóna garðana 10 í miðju stykkisins eru lykkjur fyrst teknar upp á réttunni og prjónað til enda. Svo prjónað til baka (á röngunni) - en þá þarf að passa að lykkjurnar séu teknar upp frá sömu hlið svo útkoman verði falleg. Mér finnst gott að nota heklunál við þetta.
  • EZ er klók kona sem ráðleggur að gerð séu hnappagöt báðum megin -og svo hnappar saumaðir yfir götin á pólítískt réttum stað þegar vitað er hvort krílið sem á að fá peysuna er stúlka eða drengur. Þetta er auðvitað óþarfi ef peysan er prjónuð á kríli sem er þekkt stærð að þessu leyti.
  • Hér er að finna gagnlegasta hjálparplaggið sem ég hef rekist á á netinu. Þeir sem eiga uppskriftina skilja það og geta notað - eins og ráðin hér að ofan - þeim sem eiga hana ekki ráðlegg ég að festa kaup á henni hið snarasta. Athugið að uppskriftin er varin höfundarrétti og ljósritun, skönnun eða önnur dreifing er ólögleg.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl kæra Ragga!
Er nú alltaf að fylgjast með og á örugglega einhverntímann eftir að mæta í Nálina (er bara alltaf í þessu týpíska barnaskutli á laugardagsmorgnum)
En þar sem ég er forfallin prjónakona er ég afar forvitin að vita hvernig þessi peysa lítur út! Hvernig væri að setja inn mynd fyrir lúða eins og mig, sem ekki vita hvernig þessi þekkta peysa lítur út!!

Kv. Edda hjúkka

Ragga sagði...

Hæ Edda sæta
Það eru myndir aðeins neðar á blogginu. Fer líka að bæta inn fleiri útgáfum.
Hlakka ýkt til að sjá þig í prjónó - láttu krakkana bara taka strætó með miða um hálsinn.
knus
R

María sagði...

Sæl .... ég rakst a bloggið þitt í gegnum Ravelry ... og datt inn í færslu um prjónaskap í flugvélum. Systir mín gerði sér lítið fyrir í fyrra mánuði, hringdi á flugvöllinn í Keflavík og spurðist fyrir ... Svörin voru þau að það væri búið að aflétta prjónabanni í flugvélum.
Ég kom við í Nálinni í síðustu viku og keypti mér þýðinguna þína af bsj, takk fyrir kærlega :0) ... -M-

Maríella sagði...

Góðan daginn,
Ég er búin að prjóna fyrstu BSJ peysuna og fannst afskaplega gaman að vinna hana. Ég fann YouTube færslur frá prjónaverslun sem vinnur vel með uppskriftinni og svaraði spurningum sem ég vissi ekki að ég hefði fyr en ég sá myndbandið. Þú þarft að vera eigandi uppskriftarinar til að geta notað kennsluna. Ég sendi þér hér slóðina, þú hefur kannski séð hana en hún hjálpaði mér mikið.
Takk fyrir góða þýðingu.
Kveðja
Maríella
http://www.youtube.com/watch?v=xMirlP_YuXo&feature=PlayList&p=902437CFC6DB2852&playnext=1&playnext_from=PL&index=1