þriðjudagur, 28. október 2008

Meira Noro


Jæja. Ég er alltaf jafnskotin í Noro garni. Það er samt asskoti dýrt svo að risastórar flíkur eru kannski ekki alveg á dagskránni. Hins vegar finnst mér mjög gaman að blanda saman Noro og íslenska lopanum. Lopinn er auðvitað til í öllum litum regnbogans og norogarnið gerir flíkurnar helmingi meira spennandi. Þessa peysu prjónaði ég á Rúnu Lóu sem notaði hana mikið. Í henni er reyndar þunnur mohair þráður með 2földum plötulopa og svo noro í stroffum og kraga. Lopinn er prjónaður á prjóna nr 7 minnir mig en svo skipti ég í prjóna nr 5 þegar ég fer yfir í noro - í kraganum t.d. er lykkjufjöldinn tvöfaldaður þegar noro tekur við - þetta er vegna þess að noro garnið er fínna en lopinn í þessu tilfelli. Stroffin á höndum eru höfð óvenju löng - þannig er hægt að nota peysuna helmingi lengur en ella á stækkandi krakka. Á myndinni er Númi í peysunni en nú er hún á förum til Japan þar sem Tabito bróðursonur minn mun taka við henni. Það er auðvitað einstaklega vel við hæfi þar sem hann er íslendingur og japani - rétt eins og peysan.

Engin ummæli: