Það er semsagt hellingur á prjónunum og kannski meira en endranær því ég hef verið óvenju sjúk í að byrja á nýjum hlutum. Hér er sýnishorn:
Baby surprise jacket - karrígul og hvít, bara eftir að setja tölur og sauma ermasaumana.
Baby surprise jacket - bleik og hvít. Fjórðungur búinn. Verður lítil og sæt.
Grá lopapeysa, einfaldur plötulopi- garðaprjón á búk og ermar + axlir prjónað í einu stykki eins og trefill. Er að sauma ermar við búk. Verður ýkt fín á Rúnu.
Fjólublá laskaermapeysa úr einföldum plötulopa - á mig og tekur þess vegna svooolið langan tíma.
Bleik merinópeysa á mig - prjónuð úr æðislegu smá yrjóttu merinógarni frá Helgu Jónu í Nálinni.
Vettlingar á 5 ára - handa barni á munaðarleysingjaheimili í Úkraínu. Fer í jólapakka. Rúna voða spennt. Prjóna hér tvo vettlinga í einu á einn langan prjón. Svokölluð magic-loop aðferð.
Lopapeysa á Berg - tvöfaldur plötulopi, léttlopi í munstur - næstum komin að munstrinu. Líka þolinmæðis því Bergurinn er stór.
Sjal handa mér - úr hinu frábæra Kauni garni sem fæst í Nálinni. Skiptir litum og er svart grátt og fjólublátt - klára það í vikunni.
Sjal handa Ernu - uppskriftin heitir lítið lopasjal og er úr hinni goðsagnakenndu bók Þríhyrnur og langsjöl. Ég nota vínrauðan plötulopa og loðband í næstum sama lit. Kannski geri ég ermar úr þessu - það yrði ljómandi fallegt. Á sirka 1/3 eftir.
Svo er ég að fara að taka jólagjafagerðina í gegn.
þriðjudagur, 28. október 2008
Meira Noro

Jæja. Ég er alltaf jafnskotin í Noro garni. Það er samt asskoti dýrt svo að risastórar flíkur eru kannski ekki alveg á dagskránni. Hins vegar finnst mér mjög gaman að blanda saman Noro og íslenska lopanum. Lopinn er auðvitað til í öllum litum regnbogans og norogarnið gerir flíkurnar helmingi meira spennandi. Þessa peysu prjónaði ég á Rúnu Lóu sem notaði hana mikið. Í henni er reyndar þunnur mohair þráður með 2földum plötulopa og svo noro í stroffum og kraga. Lopinn er prjónaður á prjóna nr 7 minnir mig en svo skipti ég í prjóna nr 5 þegar ég fer yfir í noro - í kraganum t.d. er lykkjufjöldinn tvöfaldaður þegar noro tekur við - þetta er vegna þess að noro garnið er fínna en lopinn í þessu tilfelli. Stroffin á höndum eru höfð óvenju löng - þannig er hægt að nota peysuna helmingi lengur en ella á stækkandi krakka. Á myndinni er Númi í peysunni en nú er hún á förum til Japan þar sem Tabito bróðursonur minn mun taka við henni. Það er auðvitað einstaklega vel við hæfi þar sem hann er íslendingur og japani - rétt eins og peysan.
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)