laugardagur, 11. nóvember 2006

Einusinni var


Þegar ég var ung með augað í pung var ég allsvakalega dugleg við ýmisskonar handverk. 10 ára saumaði ég helling á bróður minn (Héðinn) með hjálp Grétu stjúpu minnar. Hún kenndi mér líka að applíkera. Einusinni fengu allar kerlingar fína tvöfalda taupoka í jólagjöf - svona baðherbergispunt. Á tímabili málaði ég litlar kindur á tau, saumaði litla kindapúða og tróð í vatti - úr þessu urðu litlar kindanælur eða ískkápasegulstál. Ég skar gler og bjó til fína lóðaða spegla með koparbaki. Í Háskólanum drýgði ég námslánin verulega með skartgripaframleiðslu, vír og perlur og töng... svo seldi ég hrúgur í hverjum frímínútum. Einusinni breytti ég eldhúsinu mínu í flísabrots og fúguverkstæði og bjó til fína mósaíkspegla. Ég hef löngum heklað röndótta bómullarpoka utanum allskonar. Þegar Maren var lítil (5 ára) prjónaði ég á hana bómullarpeysu sem varð ansi asnaleg í laginu en ég kláraði hana... og það var stuð. Svo var hún í uppáhaldslitum litlu sætu systur minnar "orange and greeeeen" sagði hún á ekta amerísku. Þegar Hlynur var í maganum á mér prjónaði ég svo peysu númer 2 (mynd), algjörlega fríhendis. Hún er mjúk og veðruð og hippaleg, Hlynur notaði hana frá 4 mánaða aldri og núna notar Rúna Lóa hana mikið.

1 ummæli:

Halldóra sagði...

Je minn, þvílík sköpunargleði !!! Sem hefur greinilega háð þér frá barnæsku.... ;-). Garðaprjónspeysurnar eru frábærar, svo hippó og sætar. Þessi appelsínugula og græna er sérstaklega "retró".
Og hekluðu vettlingarnir mjög flottir.
Halldóra S.